Júní 2010.

Ósnotur maður,

ef eignast getur

fé eða fljóðs munuð,

metnaður honum þróast,

en mannvit aldregi:

fram gengur hann drjúgt í dul.

(úr Hávamálum)

 

Kæru vinir!

Ísland hefur sett fram almenna stefnumörkun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50-75% til 2050 og hefur gefið vilyrði á alþjóðlegum vettvangi um að taka þátt í sameiginlegu átaki með ríkjum Evrópusambandsins um 30% samdrátt í losun til 2020. Í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar er kveðið á um  aðgerðaáætlun í samræmi við stefnumörkun Íslands. Aðgerðaráætlunin hefur nú litið dagsins ljós og hvað varðar áherslu á samdrátt í losun frá fiskiskipum þá er aðgerðaáætlunin þessi:   “……. rafvæðing fiskimjölsverksmiðja og aukin notkun lífeldsneytis á skipaflotann.“

Stefnt er að því að minnka losun fiskiskipa um 24% árið 2020.

Ef ég mætti gerast svo djarfur að benda á enn einn möguleika til að minnka losun þá nefni ég  veiðar smábáta og þá aðallega handfæraveiðar.

Núverandi eyðsla togara er á bilinu 200 -500 lítra dísil olíu per tonn af t.d. þorski. Trillur fara með 5 til 50 lítra per tonn af þorski.

Ef handfæraveiðar væru frjálsar þá gætu trillurnar kannski komið með um 30.000 tonn að landi á ári  sem er um 20%  af heildarþorskaflanum. Gróflega reiknað erum við að tala um að brenna  15.000.000 lítrum minna af dísil olíu. Þá er ekki tekið inn í dæmið smurolía brennslu sem er nokkuð mikil.

Við erum ekki heldur farin að tala um náttúruspjöllin af völdum togveiða vegna röskunar  á sjávarbotni hafsins og svo á eftir að ræða um brottkastið!

Við  getum líka talað um störfin sem handfæraveiðar færa okkur. Í dag eru  700 bátar að stunda strandveiðar með góðum árangri en naumum aflaheimildum. Ef þessir bátar væru nýttir að fullu þá erum við að tala um allavega 1000 sjómenn á þessum 700 trillum sem koma með allan aflan í land, 0% brottkast og 100% nýting. Það þarf helmingi meiri mannskap (2000 manns) í landi til að taka við aflanum og vinna hann. Síðan þarf að þjónusta landvinnsluna, bátar og vélar með vörum og viðhaldi. Það eru fleiri hundruð manns sem koma þar að.

En þetta er orðið allt of langt mál en þó brýnt þykir mér.

Það væri gaman að sjá þetta útreiknað af sérfræðingum til að fá háréttar tölur og full ástæða til.

Kær kveðja,

KK