Október 2018.
Ég heiti Kristján Kristjánsson, bý í Karfavoginum síðan 2003, bjó áður á Hofteignum í 8 ár og þar áður í 4 ár í Álfablokkinni (Álfheimum 50) . Giftur og á 3 börn og 1 barnabarn. Ég er tónlistarmaður og hef gefið út plötur síðan 1991, ég veit ekki hvað margar, ég held eitthvað milli 15 – 20 titlar, og svo hef ég gert ýmislegt annað sem tengist tónlist. Mér hefur gengið ágætlega. Ég veit samt ekki hvað ég hef selt margar plötur í allt, en ég veit að ég hef ekki unnið keppnina um hver selur mest. Ég veit ekki einu sinni í hvað sæti ég er. Ég vissi ekki einu sinni að tónlist væri keppnisgrein og að keppnin væri í fullum gangi, fyrr en ég las um það í blöðunum. Þá fór ég að vera hræddur um að ég væri að tapa, en svo fór ég bara að hlusta á góða tónlist þá hætti ég að hugsa um þetta. Ég mæli með góðri tónlist og öðru í þeim dúr.
Reykjavík er mín borg og Laugardalurinn og Elliðarárdalurinn eru grænu svæðin sem eru næst mér. Það er enginn vafi að borgarbúar hafa gagn og gaman af opnum grænum svæðum og það sem er gott fyrir borgarbúa er gott fyrir borgina.
Ég læt mig dreyma og ímynda mér hitt og þetta.
Ég vona að einhvern tíma verði útimarkaður í Laugardalnum (eða inni í Höllinni) um helgar á sumrin þar sem allir geta komið með dót sem þeir vilja losa sig við og borga bara 500kr fyrir stæðið. Ég vona að haldnir verða tónleikar ókeypis í Laugardalnum 8 laugardaga á sumrin og seldar pylsur og með því.
Ég vona að einhvern daginn verði ákveðið að byggja sporvagna kerfi í Reykjavík þar sem vagnarnir ganga á 7 mínútna fresti á öllum helstu stofnbrautunum; Sæbraut, Miklubraut, Hringbraut, Kringlumýrarbraut, Suðurlandsbraut, Breiðholtsbraut o.s.frv. , það er minn draumur. Borgarbúar mundu græða á því. Þá græðir borgin líka. Olíufélögin mundu stór tapa á því.
Ég vona að einhvern daginn fái ég þá tilfinningu að íbúar hafi meira vægi hjá yfirvöldum heldur en stór fyrirtæki, það er minn draumur. Ég held að sá dagur muni koma að við munum fá stjórnvöld sem þyki vænt um íbúa landsins, fyrrverandi, núverandi og komandi, og munu sýna það í einlægni og í verki öllum stundum, en ekki bara í þykkjustunni rétt fyrir kosningar. Annars er algjör firra að búa í svo friðsælu og gefandi landi sem Ísland er og vera yfirleitt að kvarta og rífast yfir einhverju. Ef til vill ætti frekar að pæla í hvernig ég mætti gagnast Guði og meðbræðrum mínum. Kannski lagast allt við það.
Ég læt mig dreyma og ímynda mér hitt og þetta.